Bóka flug til: Belfast

Flug

Tegund ferðar:
Brottfarastaðir og áfangastaðir
Expense account
Farþegar:
Farrými:
Leita eftir:

Belfast, höfuðstaður Norður-Írlands, hefur gengið í endurnýjun lífdaga síðan friður komst á í borginni árið 1998. Í borginni blómstrar nú menningarlífið sem aldrei fyrr, næturlífið er fjörugt, sagan ríkuleg og ómur af írskri þjóðlagatónlist berst út um dyr og glugga kránna.

Icelandair býður beint flug til Belfast og er flogið allt að þrisvar í viku á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum.

Flugið er í samstarfi við Air Iceland Connect og flogið á Q400 vélum.

Titanic heillar

Margt er að sjá og skoða í Belfast fyrir ferðamenn. Eitt helsta aðdráttaraflið býr í sögu RMS Titanic, sem var smíðað í borginni í skipasmíðastöð sem þá var sú stærsta í heiminum, enda var Belfast stöndug iðnaðarborg í upphafi 20. aldarinnar.

Ýmislegt er í boði fyrir þá sem hafa áhuga á sögu Titanic, meðal annars glæsilega hönnuð margmiðlunarsýning um smíði og sögu skipsins og veitingastaður sem býður upp á síðustu máltíðina sem borin var fram í skipinu. Nýtt og glæsilegt hverfi, Titanic Quarter, er nú að byggjast upp meðfram ánni Lagan en gamlar skipasmíðastövar víkja.

Guinness og gelíska

Gamla Írland er þó aldrei langt undan í hinni nútímalegu Belfast. Fyrir utan sterka og lifandi þjóðlagatónlistarhefð má sjá gelískuna á skiltum og sums staðar heyra hana talaða, en gamla írska tungan var endurvakin á 7. áratugnum og í dag hafa 4,4% írsku þjóðarinnar hana að móðurmáli.

Hiklaust er hægt að mæla með innliti á gamaldags krá, könnu af Guinnessbjór og skál af heimagerðri beef stew. En borgin er líka full af spennandi veitingastöðum af flestu tagi og lítill vandi að finna sér bita við hæfi.

Gamalgróinn markaður, St. George’s Market, er haldinn allar helgar í fallegum byggingum frá Viktoríutímanum og var valinn besti innimarkaður Bretlands árið 2014. Markaður hefur verið haldinn á þessum stað síðan 1608 og þar fæst meðal annars ferskt sjávarfang, handverk og antík.

Gott að vita

Flogið er til George Best Belfast City Airport sem er aðeins 5 km frá miðborginni.

Verslun er sérstaklega þægileg í Belfast þar sem verslunargötur í miðbænum eru á fremur litlu svæði, auk þess sem tvær verslanamiðstöðvar eru þar skammt frá, að ógleymdum ýmsum mörkuðum.

Frekari upplýsingar um Belfast: http://visitbelfast.com