Bóka flug til: Brussel

Flug

Tegund ferðar:
Brottfarastaðir og áfangastaðir
Expense account
Farþegar:
Farrými:
Leita eftir:

Brussel er stundum nefnd Höfuðborg Evrópu og tengist hún daglegu lífi fjölmargra Evrópubúa. Þar eru höfuðstöðvar Evrópusambandsins og NATO þar sem afdrifaríkar ákvarðanir er teknar á hverjum degi. Brussel er þó fyrst og fremst höfuðborg Belgíu og á hún sér langa og merkilega sögu sem spannar rúmar tíu aldir. Þar gefst því tækifæri til að komast í snertingu við margt af því besta í evrópskri menningu. Icelandair flýgur í beinu áætlunarflugi til Brussel yfir sumartímann.

Hjarta og sál Brussel

Aldagamlar hefðir og byggingar setja svip sinn á gamla bæjarkjarnann við Miklatorg, Grand Place, sem verið hefur hjarta borgarinnar og sál um aldir. Yfir torginu gnæfa merkilegar byggingar frá liðnum öldum í gotneskum, endurreisnar- og barokkstíl, og segja sögu borgarinnar með miklum tilþrifum. Við torgið standa t.a.m. ráðhús borgarinnar og borgarsögusafn Brussel.

Menning, myndasögur og sprænandi stytta

Í Brussel er margt einstakt að sjá og skoða. Það vilja allir mynd af sér með Manneken Pis, tákni borgarinnar, smástyttunni frægu af stráknum sem er að pissa í gosbrunn við Rue de l’Etuve, skammt frá Miklatorgi. Þaðan er svo stutt að ganga í heillandi, gömul borgarhverfi, L’Ilot Sacré og Le Sablon. Notre Dame de Sablon er stórfengleg gotnesk kirkja frá 15. og 16. öld og í Musée d’Art Ancien má sjá m.a. verk eftir Rubens, van de Weyden, Breughel og Bosch. En í Brussel er það ekki bara hámenningin sem ræður ríkjum. Tinni, Svalur og Valur, Lukku Láki og Viggó Viðutan eru allir ættaðir frá Belgíu og í Brussel er myndasöguhefðin heiðruð með safni og sérstakri leið um stræti borgarinnar. Það má heldur ekki gleyma bardagakempunni Van Damme, en árið 2012 var afhjúpuð stytta af kappanum fyrir utan verslunarmiöstöðina Westland.

Láttu bragðlaukana ráða för í Brussel

Eitt af því sem gerir heimsókn til Brussel eftirsóknarverða er að í borginni er að finna fjölda góðra veitingastaða þar sem verðið er mjög hagstætt. Þar eru staðir sem bjóða gestum sínum „haute cuisine“ en einnig hefðbundna belgíska rétti, svo sem Moules-Frites og Carbonnades Flamandes. Bestu veitingahúsin í Brussel þykja jafnast á við bestu veitingahús Parísar og er verðið þá eftir því. Það fer heldur enginn til Brussel án þess að láta freistast af hinu fræga belgíska konfekti (pralines), sem gleður munn og maga, svo ekki sé minnst á belgíska vöfflu eða kollu af freyðandi, belgísku öli.

Gott að vita

  • Flugvöllur: Alþjóðlegi flugvöllurinn í Brussel (BRU) (Brussels Nationaal/ Brussels-National) er í  Zaventem, 11 km norðaustur af borginni
  • Matur: Við Place du Chatelain er að finna fjölmarga áhugaverða veitingastaði sem lifna sérstaklega við á miðvikudagseftirmiðdegi, þegar markaðir loka. Í götunum umhverfis Saint Boniface kirkjuna eru að sama skapi skemmtilegir staðir og við Place Stephanie eru nokkrir litlir og huggulegir veitingastaðir sem er vert að sækja heim
  • Verslun: Helsta verslunargatan í miðborg Brussel er Rue Neuve (Nieuwstraat) þar sem eru m.a. stórverslanir. Fínar merkjavöruverslanir og fornmunaverslanir eru einkum í Sablon-hverfinu, milli Porte Louise og Porte de Namur og við Avenue Louise
  • Afþreying: Listasöfn, tónleikasalir og kaffihús eru helsta aðdráttarafl Brussel, en skemmtanalíf borgarinnar er heldur ekki af verri endanum. Næturklúbbar borgarinnar liggja víðsvegar um borgina og eru ekki bundnir við neitt eitt hverfi