Fargjaldastríð

Fargjaldastríð

1955

Eitt af því sem helst skipti sköpum fyrir Loftleiðir á uppgangstíma félagsins var að ákveðið var að standa utan við Alþjóðasamband flugfélaga, IATA, sem auk þess að annast ýmis sameiginlega hagsmunamál flugfélaga ákvarðaði líka fargjöld á mörgum leiðum. Furstadæmið Lúxemborg var ekki bundið af ákvörðunum IATA og hentaði því Loftleiðum vel.

Engin flugfélög voru með áætlunarflug þangað svo yfirvöld í Lúxemborg voru líka áhugasöm um samstarf. Úr varð að Loftleiðir hófu þangað farþegaflug árið 1955. Þar með gat félagið boðið lægri fargjöld milli Evrópu og Bandaríkjanna og farþegum fjölgaði gífurlega. Þegar mest var flutti félagið um 300.000 farþega á ári til Lúxemborgar. Þaðan fóru þeir síðan með lestum og langferðabílum vítt og breitt um Evrópu. Þessi árangur náðist að vísu ekki fyrirhafnarlaust.

Markaðsstarf Loftleiða var mjög öflugt og bryddað var upp á ýmsum nýjungum. Meðal annars var farþegum boðið að greiða fargjöldin með raðgreiðslum á allt að 24 mánuðum. Slíkir viðskiptahættir voru þá nánast óþekktir. Jafnframt var farið í mikið landkynningarstarf og boðið upp á sérstaka pakka fyrir farþega sem vildu eiga viðdvöl á Íslandi á leiðinni yfir Atlantshafið.