Fljúgandi danssalur

Fljúgandi danssalur

1947

„Mér fannst þetta eins og stærsti danssalur,“ sagði Alfreð Elíasson um fyrstu viðbrögð sín við skoðun á Douglas DC4 Skymaster, en Loftleiðamenn réðust í það stórvirki að kaupa slíka vél árið 1947. Þessi flugvélategund var oftast kölluð „Fjarkinn“ hér á landi og var mikið notuð í millilandaflugi næsta áratuginn. Fyrsti Skymasterinn fékk nafnið Hekla.

Loftleiðamenn keyptu aðra slíka vél, Geysi, árið 1948, sama ár og Flugfélag Íslands keypti fyrsta Gullfaxann, en hann var sömu gerðar. Skymasterinn tók 46 farþega og þótti fólki mikið til hans koma. Þetta var fyrsta raunverulega millilandaflugvél Íslendinga.