Flogið yfir hafið

Flogið yfir hafið

1944

Haustið 1944 urðu þau merku tímamót í íslenskri flugsögu að íslenskar áhafnir flugu í fyrsta sinn yfir Atlantshaf. Báðum flugfélögunum var það mikið kappsmál að verða á undan yfir hafið. Foringjar keppnisliðanna voru þeir Örn Ó. Johnson og Sigurður Ólafsson.

Sigurður lagði af stað frá New York tæplega hálfum mánuði á undan Erni. Hann flaug Grumman-flugbáti og var það fyrsta flug vélar af þeirri tegund yfir Atlantshafið. Vegna erfiðra veðurskilyrða varð hann að hafa viðkomu í Kanada og á Grænlandi. Svo fór því að Örn sigraði í kappfluginu á Catalina-flugbáti, Gamla Pétri, sem Flugfélagið hafði keypt vestra. Örn lenti í Reykjavík þremur dögum á undan Sigurði, hinn 13. október 1944.

Flugfélagið fékk svo árið eftir leyfi til að fljúga í tilraunaskyni til Bretlands og var fyrsta ferðin farin 11. júlí 1945. Flogið var til Largs Bay í Skotlandi með fjóra farþega. Þar með hófst millilandaflug Íslendinga.