Fyrsta þotan

Fyrsta þotan

1967

Flugfélag Íslands átti næsta stórleik, kaup á fyrstu þotunni til Íslands. Hún var af gerðinni Boeing 727-100C og kom til landsins árið 1967. Þotan var innréttuð sérstaklega fyrir flugfélagið og var farþegarýmið meðal annars skreytt teikningum úr íslensku þjóðlífi. Hún fékk nafnið Gullfaxi eins og önnur flaggskip félagsins. Vélin þótti mikil völundarsmíð og hentaði Flugfélaginu vel þar sem hægt var að minnka og stækka farþegarýmið eftir því hversu mikla frakt þurfti að flytja.

Ekki fékkst leyfi til að gera þotuna út frá Reykjavíkurflugvelli og var millilandaflug Flugfélagsins þá flutt til Keflavíkur.

Á þessum árum gekk millilandaflug íslensku flugfélaganna vel. Auk áætlunarflugs var Grænlandsflug þeim drjúg búbót og jafnframt var leiguflug til sólarlanda að hefjast. Flogið var með sólþyrsta Íslendinga til Kanaríeyja yfir vetrartímann og Mallorca, Spánar og víðar á sumrin.