Leifur heppni

Leifur heppni

1987

Þegar hér var komið sögu var nýja flugstöðin risin. Hún var um 14.000 fermetrar að stærð og hin glæsilegasta að allri gerð. Flugstöðin var vígð 15. apríl 1987 og hlaut nafnið Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Um þrjú þúsund manns var við vígsluathöfnina og var mikið við haft. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir því að hún yrði 24.000 fermetrar en það þótti í of mikið ráðist. Engan óraði sjálfsagt fyrir því að farþegum sem færu um stöðina myndi fjölga svo ört að innan fárra ára yrði hún of lítil. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin fóru 460.000 farþegar árlega um Keflavíkurflugvöll en árið 2006 voru þeir orðnir 2.000.000. Tvívegis hefur því þurft að bæta við húsrýmið og árið 2007 var gólfflötur Leifsstöðvar orðinn 56.000 fermetrar.

Við þessi tímamót tóku Flugleiðir í notkun 4.000 fermetra þjónustubyggingu. Þangað fluttust fraktdeildin, flugeldhúsið og tækjaverkstæðið. Þar var líka lager fyrir tollfrjálsan varning en sala á honum um borð í farþegaþotunum hófst þetta vor. Sú farandverslun hlaut nafnið Saga Boutique.