Loftleiðaævintýrið

Loftleiðaævintýrið

1952

Árið 1952 var viðburðaríkt í sögu Loftleiða. Hörð samkeppni íslensku flugfélaganna hafði leitt til þess að stjórnvöld ákváðu í janúar 1952 að skipta innanlandsleiðum milli þeirra. Stjórn Loftleiða sætti sig ekki við það og lagði niður allt innanlandsflug. Um svipað leyti gereyðilagðist Skymaster-vél félagsins eftir að hafa lent út af flugbraut á Ítalíu og í framhaldi af því kom til álita að hætta flugrekstri og fara í staðinn í skipaútgerð.

Ágreiningur um málið endaði með byltingarfundi í stjórn Loftleiða 15. október 1953. Þá var kosin ný stjórn sem stýrði félaginu inn í mikla gósentíð, sérstaklega eftir að tekið var upp samstarf við norska félagið Braathen’s S.A.F.E. Loftleiðir settu fullan kraft í Norður-Atlantshafsflug á lágum fargjöldum og á fáum árum urðu Lofleiðir stórveldi í farþegaflutningum milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Í „byltingarstjórn“ Loftleiða sátu þeir Kristján Guðlaugsson, formaður, Alfreð Elíasson, sem jafnframt varð framkvæmdastjóri félagsins, Sigurður Helgason, Ólafur Bjarnason og Kristinn Olsen. Stjórnin var nánast óbreytt allt til þess að flugfélögin tvö sameinuðust árið 1973.