Miklavantstilraunir

Miklavantstilraunir

1944

Síldin var ekki einungis mikilvæg sjávarplássunum á Norðurlandi á þessum árum. Hún var líka mikil lyftistöng fyrir flugið. Samningar um síldarleit úr lofti skiptu verulegu máli fyrir Loftleiðir á fyrstu árum félagsins.

Alfreð Elíasson og Kristinn Olsen bjuggu allt sumarið 1944 í tjaldi við Miklavatn í Fljótum og gerðu út á síldina. Þeir flugu í allt að 300 klukkustundir við að leita að þessu silfri hafsins. Í vertíðarlok urðu þeir hins vegar fyrir því að Stinsoninn laskaðist í flugtaki á vatninu.

Þegar flytja átti síðan vélina með vörubíl til Reykjavíkur vildi ekki betur til en svo að vélin rakst upp í símalínu og gjöreyðilagðist. Fyrsta flugvél Loftleiða var þar með úr sögunni. Loftleiðamenn gáfust þó ekki upp og næsta sumar var félagið komið með tvær flugvélar til síldarleitar og farþegaflutninga.