Nýtt leiðarkerfi

Nýtt leiðarkerfi

1987

Nýja flugstöðin bauð upp á ýmsa möguleika. Einn þeirra var að breyta leiðakerfi Flugleiða en félagið hafði í rauninni rekið tvö leiðakerfi sem voru byggð á gömlum grunni. Annars vegar var Evrópuflugið og hins vegar leiðin milli Lúxemborgar og Bandaríkjanna.

Nýja leiðakerfið, svokallað mönduls- og teinakerfi (hub-and-spoke), sem tekið var upp árið 1987, gekk út frá Keflavík sem miðstöð flugsins og út frá henni lágu síðan margar leiðir í austur og vestur. Ferðum var fjölgað og áætlanir samræmdar þannig að farþegar sem komu frá Bandaríkjunum snemma morguns gátu haldið áfram á ýmsa áfangastaði í Evrópu skömmu síðar. Síðdegis komu svo flugvélar frá Evrópu og héldu áfram nokkru síðar áleiðis til Bandaríkjanna. Þetta kerfi hefur reynst vel og er enn í fullu gildi.