Pílagrímsflug

Pílagrímsflug

1974

Þrátt fyrir sameiningu áætlunarflugsins var fjárhagsstaða Flugleiða heldur bágborin fyrstu árin. Farþegum fækkaði í millilandaflugi og bætti það ekki úr skák. Eitt af því sem þá hélt félaginu á floti var leiguflugið. Í vaxandi mæli var flogið með hópa erlendra og innlendra ferðamanna til og frá stöðum sem ekki voru á áætlanaleiðum og svo bættist pílagrímaflugið við. Það hentaði Flugleiðum einkar vel enda var trúarhátíð íslams í Mekka að vetri til á þessum árum og þá hafði félagið bæði flugvélar og mannskap á lausu.

Í byrjun var eingöngu fluttur farangur pílagrímanna en næstu árin voru tugþúsundir pílagríma fluttir frá Nígeríu, Alsír og Indónesíu til Jeddah í Saudi-Arabíu. Að auki komst á viðamikið samstarf Flugleiða og alsírska flugfélagsins Air Algerie þar sem Flugleiðir sáu meðal annars um hluta áætlunarflugs Air Algerie. Pílagrímafluginu lauk árið 1984 þegar trúarhátíðina bar upp á háannatíma Flugleiða. Samstarfið við Air Algerie stóð fram til ársins 1986.