Samkeppni

Samkeppni

1944

Undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar fjölgaði íslenskum flugmönnum verulega. Vestur-Íslendingurinn Konráð Jóhannsson rak flugskóla í Kanada og þangað flykktust ungir flugáhugamenn.

Margir frægir flugkappar öðluðust sín fyrstu réttindi hjá Konráði. Þeirra á meðal voru þeir Jóhannes R. Snorrason, Magnús Guðmundsson, Smári Karlsson, Alfreð Elíasson, Kristinn Olsen og Sigurður Ólafsson. Þeir þrír síðasttöldu sneru heim í árslok 1943 og höfðu þá í farteskinu fjögurra sæta Stinson-vél sem þeir hugðust leggja með sér til Flugfélagsins gegn því að fá þar starf.

Eftir áföll síðustu ára treystu Flugfélagsmenn sér hins vegar ekki til að færa út kvíarnar í bili. Þremenningarnir brugðu þá á það ráð að stofna nýtt flugfélag, Loftleiðir hf. Félagið var stofnað 10. mars 1944 og var byrjað á farþegaflugi til Ísafjarðar. Samkeppni í innanlandsflugi á Íslandi var hafin.