Þægindin aukast

Þægindin aukast

1957

Flugfarþegar urðu lengi vel að sætta sig við talsverð óþægindi í flugferðum. Flugvélarnar voru lengi að komast milli landa, bæði vegna þess að þær fóru mun hægar yfir en síðari tíma vélar og eins varð að fljúga lægra vegna þrýstingsmunarins. Stundum var beinlínis líkamlega erfitt að þola hann. Því var nánast ógerlegt að fljúga ofar veðri og vindum. Þetta gjörbreyttist þegar Flugfélag Íslands eignaðist tvær skrúfuþotur af gerðinni Vickers Viscount 759.

Kaupin vöktu mikla athygli hérlendis og þóttu stórt framfaraspor í flugmálum landsmanna. Þær voru fyrstu íslensku flugvélarnar sem knúnar voru með hverfilhreyflum og höfðu þrýstijöfnunarbúnað í farþegarýminu. Því var hægt að fljúga allt upp í 25.000 feta hæð, en á gömlu Skymaster-vélunum urðu menn að vera með súrefnisgrímur ef farið var yfir 10.000 feta hæð. Auk þess voru Viscount-vélarnar mun hraðfleygari en Skymasterarnir.

Með tilkomu þeirra var í fyrsta sinn í sögu flugs á Íslandi hægt að fljúga fram og til baka á einum degi. Flugtíminn til Kaupmannahafnar styttist til dæmis um heilar tvær klukkustundir, varð fjórar og hálf klukkustund. Það var því von að landsmenn fögnuðu þessum glæsilegu vélum.