Þjónusta um borð

Þjónusta um borð

1947

Um leið og farþegum fjölgaði í flugvélunum varð þörf fyrir að þeim væri sinnt á ferðalaginu. Langan tíma tók að fljúga á milli staða, jafnvel innanlands, og ekki dugði að láta fólk búa við skrínukost í lúxus farkostum. Nú fengu því konur hlutverk í fluginu. Fyrsta flugþernan, Sigríður Gunnlaugsdóttir, var ráðin til starfa hjá Flugfélagi Íslands sumarið 1946 og ekki vantaði áhugann.

Þegar næsta staða var auglýst hálfu ári síðar sóttu 50 konur um hana. Samt var þetta erfitt starf, sérstaklega í millilandafluginu, þegar tvær flugfreyjur þurftu að þjóna tugum farþega við erfiðar aðstæður klukkustundum saman. En flugævintýrið heillaði og flugfreyjustarfið varð strax virðingarstaða. Kristín Snæhólm varð hlutskörpust í samkeppninni og átti hún farsælan flugfreyjuferil allt til ársins 1980.