Þoturnar stækka

Þoturnar stækka

1990

Í apríl 1990 kom fyrsta Boeing 757-200 þotan til landsins og hlaut hún nafnið Hafdís. Í vélinni voru 189 sæti, þar af 22 mjög rúmgóð Saga Class sæti. Önnur þota af þessari gerð, Fanndís, kom mánuði síðar. Þriðja vélin, Svandís, var leigð til flugfélagsins Brittania og kom því ekki í rekstur hjá Flugleiðum fyrr en vorið 1993.

Með þessum glæsilegu farkostum höfðu Flugleiðir endurnýjað millilandaflugflota sinn og átti það eftir að reynast heilladrjúgt, sérstaklega síðari hluta ársins 1991 þegar eldsneytisverð rauk upp vegna mikillar ólgu í ríkjunum við Persaflóa. Nýr flugfloti Flugleiða var sérlega sparneytinn.

Eldsneytiskostnaður var 30-40% lægri á hvert sæti á nýju vélunum en þeim gömlu. Þar við bættist að viðhaldskostnaður var miklu minni og flugliðum fækkaði um borð. Það jók á hagkvæmni vélanna. Fimmtíu flugvélstjórar létu af störfum sem flugliðar og fóru þeir flestir að vinna í flugskýlinu. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að nokkrir af yngstu flugvirkjunum misstu vinnuna.

Árið 1995 var ákveðið að stefna að því að vera með aðeins eina flugvélategund í millilandafluginu og í samræmi við það var gerður kaupsamningur árið 1997 fyrir sex Boeing 757 vélum og var það stærsti kaupsamningur í sögu flugs á Íslandi.