Útibú í suðurhöfum

Útibú í suðurhöfum

1969

Loftleiðir hófu þotuflug sitt með óvenjulegum hætti vorið 1969. Heimild Bandaríkjastjórnar til farþegaflugs á lágum fargjöldum var bundið við hægfleygar vélar og samkvæmt því gátu Loftleiðamenn ekki skipti yfir í þotur. Auglýstu þeir því gjarnan þjónustu sína með slagorðinu „We are slower but we are lower“.

Krókur á móti bragði fannst hins vegar á Bahamaeyjum. Þar var lítið flugfélag, Air Bahama, sem bauð ferðir til Lúxemborgar á lágum fargjöldum – og notaði þotur. Loftleiðir náðu að yfirtaka rekstur félagsins og var gengið frá kaupunum 5. mars 1969. Daginn eftir var svo fyrsta þotuflugið á vegum Loftleiða frá Bahama til Lúxemborgar.