11.07.2015 11:07

Á þessu ári, nánar tiltekið í dag 11. júlí, eru 70 ár frá því að farþegaflug milli Íslands og annarra landa hófst. Icelandair mun minnast þessara tímamóta í sögu félagsins með ýmsum hætti í sumar, og í lok ágúst verður sérstök athöfn í Skotlandi en þangað var fyrsta farþegaflugið farið, eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar, sumarið 1945.

Forystumenn bæði Flugfélags Íslands og Loftleiða, forvera Icelandair, höfðu keypt flugbáta á árinu á undan í Bandaríkjunum með það í huga að hefja flug til annarra landa. Loftleiðamenn keyptu Grumman-flugbát og Flugfélagsmenn Catalina-flugbát og á þeim flugvélum var flogið til að byrja með. En segja má að fyrsta raunverulega millilandaflugvél Íslendinga hafi verið hin 46 farþega Douglas DC-4 Skymaster, sem ýmist var kölluð Hekla eða „Fjarkinn“, en Loftleiðir hófu rekstur hennar 1947.

„Saga flugsins og saga Icelandair er saga mikilla breytinga fyrir íslensku þjóðina á undanförnum áratugum. Það voru merkir frumkvöðlar sem lögðu grunninn að þessari atvinnugrein og við leggjum okkur fram við að halda merki þeirra á lofti með kraftmiklu starfi, sem byggir þeirri miklu sérþekkingu og menntun sem orðið hefur til hér á landi í öllu sem viðkemur flugrekstri“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Í bókinni Fimmtíu flogin ár - atvinnuflugsaga Íslands 1937-1987 eftir Steinar J. Lúðvíksson og Svein Sæmundsson segir um þetta fyrsta farþegaflug milli landa:

Fjórir farþegar

11. júlí 1945

Í morgun lagði Catalina flugbátur Flugfélags Íslands af stað frá Reykjavík til Skotlands. Flugbáturinn, sem ber einkennisstafina TF-ISP, fór frá Skerjafirði kl. 07:27. Flugstjóri er Jóhannes R. Snorrason, flugmaður Smári Karlsson, vélamaður Sigurður Ingólfsson og loftskeytamaður Jóhann Gíslason, en auk þeirra eru tveir menn úr breska flughernum og er það að kröfu hernaðaryfirvalda. Fjórir farþegar voru með flugvélinni, stórkaupmennirnir Hans Þórðarson, Jón Jóhannesson og Jón Einarsson og séra Róbert Jack. Ferðin gekk vel. Flugmenn höfðu mótvind nokkurn hluta leiðarinnar en lentu í Largs Bay eftir sex klukkustunda og fjögurra mínútna flug. Þegar flugvélin var lent stóðu farþegar upp og hrópuðu ferfalt húrra fyrir flugmönnunum. Viðstaða í Skotlandi varð ekki löng. Morguninn eftir snéri flugvélin aftur til Íslands og lenti á Skerjafirðinum við Reykjavík kl. 17:00. Flugið til Íslands hafði tekið sex klukkustundir. Engir farþegar voru til Íslands, en vel var tekið á móti áhöfninni úr þessu fyrsta farþegaflugi Íslendinga milli landa. Við komuna upplýsti Örn Ó. Johnson að félagið hefði fengið leyfi til þriggja reynsluferða til Skotlands þetta sumar og að ákveðið væri að fara þær á næstunni. Enn fremur hefði verið sótt um leyfi til Danmerkurflugs, en svar væri ókomið.

Flugstjórinn, Jóhannes R. Snorrason, sagði síðar frá: „Okkur var mjög vinsamlega tekið í Largs og fyrirmenn bæjarins buðu okkur til tedrykkju á fögrum stað og spurðu margra spurninga um Flugfélagið og þjóðina, sem hafði hafið millilandaflug, meðan þjóðir Evrópu voru enn að sleikja sár sín eftir ófriðinn“.

Á myndinni sem fylgir er TF-ISP, Catalina flugbáturinn sem notaður var til þessa fyrsta farþegaflugs íslensks flugfélags.