10.05.2012 15:10

Flugdagur Flugmálafélags Íslands verður haldinn á Reykjavíkurflugvelli, við Hótel Natura (áður Loftleiðir), mánudaginn 28. maí 2012 milli klukkan 12:00 og 16:00.

  • Boðið verður upp á flugsýningu Flugmálafélags Íslands þar sem hægt verður að skoða fjölda flugvéla af öllum stærðum og gerðum.
  • Fjölbreytt flugatriði verða svo sem listflug, nákvæmnisflug á þyrlu, flugmódel, svifflugur, svifvængir, í raun flest sem flogið getur.
  • Landhelgisgæslan verður með sýningarflug.+
  • Í tilefni af 75 ára afmæli Icelandair kemur Catalina flugbátur til landsins.
  • Aðgangur er ókeypis.

Catalina flugbátar voru í notkun hérlendis frá 1944 til 1963. Fyrsti Catalina-bátur Íslendinga var TF-ISP Flugfélags Íslands, kallaður Gamli-Pétur. Þessi flugvél var keypt frá Bandaríkjunum árið 1944. Hún varð fyrsta íslenska flugvélin til þess að fljúga milli landa þegar áhöfn skipuð þeim Erni Ó. Johnson, flugstjóra, Smára Karlssyni, flugmanni og Sigurði Ingólfssyni, flugvélstjóra, flaug vélinni heim frá New York í október 1944 ásamt tveimur Bandaríkjamönnum. Þessi flugvél flaug fyrsta millilandaflug Flugfélags Íslands sumarið 1945.

Catalina flugbátar Flugfélags Íslands, Gamli-Pétur, Sæfaxi og Skýfaxi, og Loftleiða,  Vestfirðingur og Dynjandi, áttu mikinn þátt í uppbyggingu innanlandsflugs á árunum 1944 til 1961 þegar flugvellir voru fáir, samgöngur á landi erfiðar og sjóferðir tímafrekar.

Síðasti Catalina flugbáturinn í notkun hérlendis var landhelgisflugvélin TF-Rán. Hún var í notkun hérlendis frá 1954 til 1963 og kom hún mjög við sögu í þorskveiðideilum Íslendinga við Breta.