09.05.2010 13:22

Icelandair hefur tilkynnt breytingar á flugi á morgun, mánudaginn 10. maí, vegna áframhaldandi óvissu um hvort Keflavíkurflugvöllur verður opinn fyrir flugumferð. Miðað við spár er nú gert ráð fyrir að flug verði komið á áætlun á þriðjudagsmorgun.

Tengistöð millilandaflugsins til Bandaríkjanna og Evrópu verður í Glasgow á morgun, líkt og í dag og í gær. Sérstök flug eru síðan sett upp á milli Glasgow og Akureyrar fyrir farþega sem eru annað hvort að koma til Íslands eða fara frá landinu og eru rútuferðir í boði frá BSÍ.

"Þetta er mikil röskun fyrir þúsundir farþega, en þeir eru þolinmóðir og skilningsríkir og almennt þakklátir fyrir að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að þeir komist til síns áfangastaðar samdægurs.  Allt starfsfólk þjónustuvers Icelandair hefur verið kallað út til að sinna viðskiptavinum. Sms sendingar, tilkynningar á vef félagsins, tölvupóstar og tilkynningar til fjölmiðla eru nýttar til að reyna að ná til þeirra um 12 þúsund farþega af fjölmörgu þjóðerni um allan heim, sem eiga flug með okkur þessa þrjá daga, þ.e. í gær, í dag og á morgun", segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Breytingarnar ná til alls flugs Icelandair á morgun, flug eru felld niður og ný flug sett upp í stað þeirra með tilliti til tengingarinnar í Glasgow.  Þó er stefnt að því að flug til Boston undir kvöld á morgun verði frá Keflavíkurflugvelli.

Nánari upplýsingar um einstök flug eru á www.icelandair.is og eru viðskiptavinir hvattir til þess að kynna sér þær. Sem fyrr eru farþegar jafnframt  hvattir til þess að fylgjast með fréttum og upplýsingum um komu og brottfarartíma á vefmiðlum því breytingar geta orðið með skömmum fyrirvara.