05.03.2012 17:50

 

Icelandair hefur breytt reglum um innritaðan farangur. Nýju reglurnar taka gildi 1. apríl 2012 og gilda fyrir farseðla útgefna frá og með 1. apríl 2012, með brottför frá og með 1. apríl 2012.

Breytingarnar eru í takti við þá almennu þróun í flugheiminum að hverfa frá vigtarfyrirkomulagi í farangursheimild og taka upp fyrirkomulag þar sem miðað er við fjölda ferðataska. Þessar reglur auka einfaldleika og þægindi farþega.

Samkvæmt nýju reglunum er öllum farþegum heimilt að innrita eina tösku, allt að 23 kg. að þyngd, og taka auk þess með sér um borð handfarangurstösku sem má vera allt að 10 kg. Þetta er aukin þyngd í báðum tilvikum frá núverandi fyrirkomulagi. Ef farþegar vilja taka með sér fleiri en eina tösku greiða þeir ákveðna upphæð, sem t.d. er 5.700 kr. fyrir hverja aukatösku í flugi til Evrópu.

Reglur um töskufjölda og þyngd eru mismunandi eftir farrýmum og farþegar á Saga Class og Economy Compfort hafa hærri heimildir. En öllum farþegum Icelandair er alltaf heimilt að hafa með sér a.m.k. eina ferðatösku án endurgjalds.