08.05.2014 10:47

Icelandair hefur fellt niður 26 flug félagsins á morgun föstudag 9. maí vegna verkfalls Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sem stendur frá kl 06.00 til kl 18.00.

Ákvörðun um að fella niður flugin með þessum fyrirvara er tekin til þess að eyða óvissu og gefa farþegum tækifæri á því að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Í heild eru um 4500 farþegar, mest erlendir ferðamenn,  bókaðir á þau 26 flug sem um er að ræða og er upplýsingum komið til þeirra um stöðuna m.a. með textaskilaboðum og tölvupósti. Mikið álag er á þjónustuveri félagsins.

"Þó svo viðræður standi yfir hjá sáttasemjara þá komust við ekki hjá því að grípa til þessara ráðstafana nú til að koma í veg fyrir það öngþveiti sem skapast mun á morgun verði ekki af samningum. Við biðjum viðskiptavini félagsins velvirðingar á þeirri miklu röskun sem verkfallið veldur og gerum allt sem í okkar valdi stendur þeim til aðstoðar," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Verkfall flugmanna veldur Icelandair miklum vonbrigðum, enda standa þeim til boða sambærilegar launahækkanir og aðrir í samfélaginu hafa samið um að undanförnu, þar á meðal meirihluti starfsmanna Icelandair Group.

Icelandair mun eftir fremsta megni reyna að leysa úr þeim vanda sem niðurfelling flugsins skapar viðskiptavinum m.a. með því að flytja þá yfir á flug annarra flugfélaga eins og hægt er, einnig að færa farþega á önnur flug Icelandair til og frá þessum áfangastöðum ef það er unnt eða breyta farmiðum með öðrum hætti. Þeir sem hætta við ferð sína munu fá endurgreitt. Nánari upplýsingar eru á Icelandair.is.

Þau flug sem felld verða niður föstudaginn 9. maí eru eftirfarandi:  (staðartímar)

Flug

 
204 07:45 Keflavík-Kaupmannahöfn
205 14.00 Kaupmannahöfn- Keflavík
318 07:50 Keflavík- Osló
319 14:45 Osló – Keflavík
306 07:35 Keflavík – Stokkhólmur
307 14:20 Stokkhólmur – Keflavík
342 07:30 Keflavík – Helsinki
343 15:30 Helsinki – Keflavík
272 08:00 Keflavík – Billund
273 14:40 Billund – Keflavík
430 07:35 Keflavík – Glasgow
431 14:05 Glasgow – Keflavík
440 08:00 Keflavík – Manchester
441 13:25 Manchester – Keflavík
450 07:40 Keflavík – London Heathrow
451 13.00 London Heathrow – Keflavík
470 07:45 Keflavík – London Gatwick
471 13:10 London Gatwick – Keflavík
542 07:40 Keflavík – París
543 14:10 París – Keflavík
520 07:25 Keflavík – Frankfurt
521 14:00 Frankfurt – Keflavík
502 07:70 Keflavík – Amsterdam
503 14:00 Amsterdam – Keflavík
454 16:10 Keflavík – London Heathrow
455 21:10 London Heathrow – Keflavík
681 17:00 Keflavík – Seattle
(10. maí) 680 16:30 Seattle – Keflavík

Auk þessa verður 2-5 klukkustunda seinkun á síðdegisflugi til Kaupmannahafnar (FI212 / 213)  Osló (FI324 / 325), Denver, Orlando, Edmonton, Toronto, Boston og New York. Brottför er áætluð um kl 19:30 og innritun hefst síðdegis.  Búast má við seinkunum í flugi Icelandair á laugardagsmorgun.

Búast má við seinkunum í flugi Icelandair á laugardagsmorgun og eru farþegar hvattir til að fylgjast með brottfarar- og komutímum flugvéla.