25.08.2010 13:46

 Alicante!

Icelandair mun hefja flug til Alicante á næsta vori. Verið er að undirbúa sölu farseðla og hefst hún á morgun fimmtudag 26. ágúst.

Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug í apríl á næsta ári til Alicante á Spáni. Flogið verður vikulega fram í október. Alicante er fjórði nýi áfangastaðurinn sem Icelandair kynnir fyrir næsta ár, en áður hefur verið greint frá því að félagið mun bæta Billund, Gautaborg og Hamborg við áætlun sína á næsta sumri. Þar með eru áfangastaðir félagsins orðnir 30  talsins á næsta sumri og hafa aldrei verið fleiri.

"Við höfum á undanförnum mánuðum fengið mikinn fjölda áskorana frá einstaklingum og ferðaskrifstofum um að hefja áætlunarflug til Alicante og almennt er íslenski ferðamannamarkaðurinn að taka við sér. Á svæðinu er töluverður fjöldi orlofshúsa í eigu Íslendinga og margir vinsælir og fjölsóttir ferðamannastaðir í nágrenninu. Síðan munum við selja Íslandsferðir frá Alicante svæðinu í gegnum sölukerfi okkar á Spáni, en Alicante verður þriðja borgin á Spáni, sem við fljúgum til. Hinar eru Madríd og Barcelona. Að auki höfum við gengið frá samkomulagi við ferðaskrifstofuna VITA um sölu á hluta sætanna á íslenskum markaði. Þessi nýja leið styrkir þannig leiðakerfi okkar og eykur þjónustu Icelandair", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Sem fyrr segir hefst Alicante flug Icelandair fyrir páska næsta vor, eða 14. apríl, og stendur allt sumarið fram til 13. október. Flogið er morgunflug á fimmtudögum, utan tímabilsins 6. júlí til 7. september þegar flogið er eftir hádegi á miðvikudögum.