24.04.2010 17:15

Icelandair framlengir flugáætlun með Glasgow sem tengivöll til þriðjudags

Icelandair hefur sett upp flugáætlun fyrir þriðjudaginn 27. apríl sem tekur mið af áframhaldandi flugtakmörkunum á Keflavíkurflugvelli vegna ösku frá gosinu í Eyjafjallajökli.

Flugáætlun Icelandair þar til síðdegis á þriðjudag verður þannig með svipuðum hætti og sú áætlun sem sett var upp fyrir helgina. Flugvöllurinn í Glasgow verður miðstöð millilandaflugs Icelandair og Boeing 757 þotur Icelandair fljúga þaðan til og frá Bandaríkjunum og til og frá áfangastöðum í Evrópu.

Tvisvar til þrisvar á dag er síðan flogið með farþega milli Glasgow og Akureyrar. Því má segja að þeir sem fara til og frá Íslandi með Icelandair fram yfir helgi muni millilenda í Glasgow.

Áfram er rétt að hvetja farþega til þess að fylgjast vel með því hvernig flugi Icelandair til og frá landinu verður háttað því nauðsynlegt getur reynst að gera breytingar með skömmum fyrirvara. Farþegar eru hvattir til þess að fylgjast með fréttum og upplýsingum um flugáætlun, komu og brottfarartíma fluganna, m.a. á www.icelandair.is . Þjónustuver Icelandair verður opið um helgina. Rútuferðir eru í boði milli BSÍ í Reykjavíkur og Akureyrarflugvallar.

Starfsemi Icelandair samkvæmt þessari viðbúnaðaráætlun hefur í heild gengið vel í dag og í gær. Hún miðast við að halda áfram að veita viðskiptavinum þjónustu, að halda opnum flugsamgöngum milli Íslands og annarra landa og halda starfsemi félagsins áfram við krefjandi aðstæður. Áhafnir, tæknimenn, stjórnendur og þjónustufulltrúar eru í Glasgow og á Akureyri og munu vera þar starfandi eins lengi og þörf krefur.