18.08.2015 13:04

Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Montreal í Kanada í maí 2016 og er sala farseðla þegar hafin. Montreal verður sextándi áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu. Flogið verður fjórum sinnum í viku fram í nóvember, á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum.

Eins og fram hefur komið hóf Icelandair viðræður við alþjóðaflugvöllinn í borginni og ferðamálayfirvöld fyrr á þessu ári og hefur undirbúningur markaðs- og sölustarfsins gengið vel. Flug félagsins til kanadískra borga hefur aukist jafnt og þétt frá því loftferðasamningur milli Íslands og Kanada var undirritaður 2007. Fram að því hafði Icelandair haft heimild til flugs til Halifax frá 1998, en síðan hafa áfangastaðirnir Toronto, Edmonton og Vancouver bæst við, og nú Montreal.

Montreal er næst stærsta borg Kanada og stærsta borgin í Quebec fylki, með um fjórar milljónir íbúa. Borgin er miðstöð viðskipta, menningar og lista fyrir frönskumælandi Kanadamenn, og þykir yfirbragð hennar vera evrópskt í samanburði við aðrar borgir í Norður-Ameríku. Hún er nefnd eftir fellinu Mt. Royal sem er í borginni miðri. Flug milli Íslands og Montreal tekur um 5 klukkustundir.

“Við teljum Montreal falla vel að leiðakerfi Icelandair og styrki starfsemi okkar. Við getum boðið mjög hagkvæman ferðamáta fyrir ferðafólk og viðskiptalíf milli borgarinnar og allra helstu borga Evrópu með millilendingu á Keflavíkurflugvelli,” segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. “Auk þess erum við að opna enn einn markaðinn fyrir íslenska ferðaþjónustu og kynna áhugaverða borg fyrir Íslendingum í ferðahug”.

Icelandair hefur þegar tilkynnt að félagið muni hefja heilsársflug til Chicago frá og með mars á næsta ári og til Aberdeen í Skotlandi frá sama tíma, og mun því fljúga til 16 áfangastaða í Norður-Ameríku, auk 26 Evrópuborga. Fyrr á þessu ári hóf Icelandair flug til Portland í Oregon og Birmingham í Englandi.

Meðfylgjandi er kort sem sýnir leiðakerfi Icelandair þar sem Chicago, Aberdeen og Montreal hefur verið bætt við.