04.02.2013 22:57

Icelandair hefur ákveðið að auka við flug félagsins til Toronto í Kanada og næsta vetur verður flogið til borgarinnar fjórum sinnum í viku. Icelandair hóf flug til Toronto árið 2008 og fram að þessu hefur borgin verið áfangastaður frá vori og fram á haust, en frá og með 8. mars n.k. er borgin heilsársstaður í leiðakerfi Icelandair.

Toronto verður fimmta borgin í Norður-Ameríku sem sem flogið er til allt árið um kring, hinar eru Boston, New York, Seattle og Denver.

Þá hefur Icelandair hefur ákveðið að fljúga daglega til Parísar næsta vetur. Hingað til hefur verið flogið til og frá París 5 sinnum í viku þegar minnst er í janúar- og febrúarmánuðum, en fer nú í 7 sinnum í viku.  

Þá verður næsta vetur bætt við flugi til og frá Amsterdam og verður það daglegt nema í nokkrar vikur í janúar og febrúar 2014  þegar flogið verður sex sinnum í viku til borgarinnar.

Þetta er tilkynnt við upphaf Mid-Atlantic ferðakaupstefnunnar sem Icelandair stendur fyrir í Laugardalshöllinni og hefst á fimmtudaginn.  Þar koma saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu víða að í þeim tilgangi að styrkja og auka ferðamannastraum til Íslands. Hún er árlegur lykilviðburður í greininni og er nú umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr með tæplega 700 þátttakendur frá 21 landi.

Mikill vöxtur hefur einkennt starfsemi Icelandair á undanförnum árum og áætlun félagsins á þessu ári er sú stærsta í sögu þess. Alls er flogið til 35 áfangastaða í Norður-Ameríku og Evrópu á árinu.