03.04.2013 09:20

Nú styttist í fyrsta flugið til St. Pétursborgar þar sem lent verður á Pulkovo flugvelli 1. júní næstkomandi en Icelandair var valið Bjartasta vonin 2013 af flugvallaryfirvöldum á árlegum viðburði Pulkovo flugvallar, þar sem flugfélögum sem fljúga til St. Pétursborgar eru veittar viðurkenningar.

Það var Ársæll Harðarson, svæðisstjóri Icelandair fyrir Austur-Evrópu og Asíu sem veitti viðurkenningunni viðtöku ásamt Alberti Jónssyni, sendiherra Íslands í Rússlandi.

Flogið verður tvisvar í viku til 17. september nk. Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á áætlunarflug milli Íslands og Rússlands.

Með fluginu nýtir Icelandair einnig þá möguleika sem felast í leiðakerfi félagsins og tengiflugi milli Rússlands og Bandaríkjanna. Flug frá St. Pétursborg til Íslands tekur tæplega 4 klukkustundir og tímamunur milli borgarinnar og Íslands er sömuleiðis 4 klukkustundir. Því er unnt að fljúga kl. 9:40 að morgni frá St. Pétursborg og lenda á Keflavíkurflugvelli kl. 9:40 að íslenskum tíma. Þannig geta farþegar auðveldlega náð beinu áframhaldandi morgunflugi Icelandair til New York og Boston með aðeins um einnar klukkustundar tengitíma í Leifsstöð.

Tveir nýir áfangastaðir bætast einnig við, flogið verður til Zürich tvisvar í viku frá 1. júní til 14. september og Anchorage í Alaska tvisvar í viku frá 15. maí til 15. september en flugið tekur rúmlega 7 klukkustundir.

Icelandair hefur áætlunarflug til St. Pétursborgar, Anchorage og Zürich