22.03.2012 09:19

Sigurður Ingi Bjarnason, Ingi hjá SIGN, hefur hannað armbandið Lífstré sérstaklega fyrir Vildarbarnasjóð Icelandair og rennur allur ágóði af sölu þess í sjóðinn.

Ingi hjá SIGN er þekktur fyrir að hanna og smíða fallega og sérstaka skartgripi sem endurspegla dulúð og fegurð íslenskrar náttúru. Hann hefur verið dyggur stuðningsmaður Vildarbarna og hefur hluti af ágóða af sölu hans runnið til Vildarbarna á undanförnum árum.
Markmið sjóðsins Vildarbörn er að gefa langveikum börnum, foreldrum þeirra og systkinum, tækifæri til þess að fara í draumaferð sem þau ættu annars ekki kost á. Alls hafa rúmlega 300 fjölskyldur notið stuðnings frá sjóðnum frá stofnun hans.

Armbandið Lífstré samanstendur af sjö hlekkjum þar sem hver hlekkur vitnar um mikilvæga þætti lífsins. Vegferð: Lífið sjálft og ástina sem viðheldur því. Þroskann sem vex allt lífið. Hugann sem leitar uppi það háleita. Fegurðina og margbreytileika hennar. Ástríðuna sem flytur fjöll. Friðinn, forsendu gleðinnar. Dögun lífsins og eilífð þess sem marka upphaf jarðvistarinnar allt að nýju upphafi.

LÍFSTRÉ armbandið er úr silfri og ródíumhúðað. Það er eingöngu til sölu í Saga Shop, um borð í vélum Icelandair og er einnig hægt að nýta Vildarpunkta við kaupin.
Á myndinni afhendir Sigurður Ingi þeim Thelmu Ámundadóttur frá Saga Shop,  Dóru Elínu Atladóttur, fulltrúa Vildarbarna  og Ingibjörgu Ásdísi Ragnarsdóttur frá Vildarklúbbnum armbandið.