02.12.2008 10:05

Stavanger og Dusseldorf nýir áfangastaðir Icelandair næsta sumar

Icelandair kynnir um þessar mundir áætlun félagsins fyrir næsta sumar. Alls verður flogið til 23 áfangastaða og allt að 136 flug á viku. Meðal nýjunga er reglulegt flug til Stavanger í Noregi og Dusseldorf í Þýskalandi. Þá verður tíðni aukin í flugi til Toronto í Kanada frá því sem verið hefur, en í heild er um að ræða minni flugáætlun en á síðasta sumri og flug til Orlando í Florida í Bandaríkjunum verður fellt niður næsta sumar.

 "Við lögum sumaráætlun okkar að þeim aðstæðum sem ríkja hér á Íslandi og á okkar helstu mörkuðum. Við ætlum okkur að ná góðum árangri í að fá ferðamenn til landsins og gerum breytingar á áætlun okkar sem miða að því. Við bætum inn þessum nýju stöðum í Noregi og Þýskalandi en fellum út flug til Orlando frá 8. maí til 29. september, en sá staður hefur ekki leikið stórt hlutverk í sumaráætlun okkar að undanförnu. Þá gerum við breytingar á flugtíðni á vissa staði sem miða að því að auka hagkvæmni", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Icelandair byggir leiðakerfi sitt á staðsetningu landsins mitt á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Á hverjum sólarhring fara Boeing 757 þotur félagsins eina ferð til Evrópu og eina ferð til Norður-Ameríku. Með leiðakerfinu er Icelandair þannig unnt að þjóna þremur mörkuðum; heimamarkaðinum á Íslandi, ferðamannamarkaðinum til Íslands og alþjóðlegum flugmarkaði milli Evrópu og Norður-Ameríku.

“Sérstaða Icelandair í flugheiminum felst í  leiðakerfinu og staðsetningunni hér á Íslandi og það er okkur mikill styrkur á óvissutímum eins og þessum. Það gerir okkur kleift að breyta um áherslur og sækja fram á einum markaði meðan varist er á öðrum. Nú er dauft yfir íslenska markaðinum, og þá sækjum við fram á erlendum mörkuðum, einkum á ferðamannamarkaðinum til Íslands, þar sem eru nýir möguleikar vegna gengisáhrifa. Ísland er ódýrara land en verið hefur. Við búum yfir miklum sveigjanleika og munum nýta okkur hann”, segir Birkir Hólm.

Næsta sumar flýgur Icelandair til fimm staða í Norður-Ameríku, þ.e. Boston, New York, Minneapolis, Toronto og Halifax, og til 17 staða í Evrópu, Osló, Bergen, Stavanger, Kaupmannahafnar, Stokkhólms, Helsinki, Manchester, London, Amsterdam, Frankfurt, Dusseldorf, Berlínar, Munchen, París, Madrid, Barcelona og Mílanó.

“Sú flugtíðni sem leiðarkerfi Icelandair tryggir – þ.e. yfir 130 flug í viku til og frá öllum helstu borgum austan hafs og vestan – er grundvöllur ferðaþjónustunnar á Íslandi. Flugið og ferðaþjónustan er útflutningsgrein sem skapar mikil atvinnutækifæri um allt land og mikilvægi þess að halda uppi góðum samgöngum milli Íslands og annarra landa verður seint ofmetið. Við hjá Icelandair leikum þar lykilhlutverk og ætlum að gera áfram”, segir Birkir Hólm Guðnason.