Pingdom Check

Umhverfismál

Umhverfisáhrif af flugstarfsemi eins og öðrum samgöngum eru töluverð. Icelandair leggur áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif af starfsemi félagsins meðal annars með því að minnka útblástur, vernda náttúruauðlindir, nýta endurnýjanlega orku og endurnýtanleg hráefni.

Lögð er áhersla á sjálfbæran vöxt félagsins en til þess þarf að huga að áhrifum starfseminnar á umhverfið, bæði staðbundið og alþjóðlega. Icelandair er þátttakandi í umhverfishópum ýmissa félaga, svo sem IATA og Airlines for Europe (A4E). Icelandair er þátttakandi í verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta ásamt yfir 300 fyrirtækjum með það að markmiði að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir.

Umhverfisstefna

Flugsamgöngur í eðli sínu tengja saman fólk, menningu og auðvelda alþjóðleg samskipti, viðskipti og flutninga. Fyrir eyju í miðju Atlantshafi eru flugsamgöngur grundvöllur sambands við umheiminn og viðheldur góðum lífsgæðum. Hins vegar hefur flug eins og aðrar tegundir samgangna veruleg áhrif á umhverfið, einkum áhrif af kolefnislosun. Icelandair Group setur markið hátt í að ná fram bættri stjórnun umhverfisáhrifa og að samræmast stefnuramma íslenskra yfirvalda fyrir íslenska ferðaþjónustu - að verða leiðandi í sjálfbærri þróun.

Við leggjum áherslu á að beita öllum ráðum til að draga úr kolefnislosun okkar, til að vekja athygli á loftslagsmálum og taka virkan þátt í aðgerðum sem iðnaðurinn setur fram, fylgjast með tækniþróun og annarri starfsemi sem vinnur að því að draga úr losun frá flugi. Þó að meginmarkmiðið sé að draga úr heildarlosun er kolefnisjöfnun mikilvæg viðbótarráðstöfun til að ná heildarmarkmiðum okkar.

Auk þess að uppfylla allar viðeigandi lagalegar kröfur og aðrar skyldur, skuldbindum við okkur til að:

  • Draga úr kolefnislosun frá flugi og öðrum einingum starfseminnar
  • Minnka úrgang, auka endurvinnslu og skoða leiðir að hringrásarstarfsemi
  • Stuðla að ábyrgri noktun á auðlindum
  • Auka notkun á umhverfisvænum vörum og þjónustu

Við metum stöðugt umhverfisáhrif frá starfsemi okkar og erum staðráðin í að styðja við stöðugar umbætur með því að setja mælanleg markmið og vakta árangur af umhverfisstarfi. 

Eitt af grunngildum Icelandair Group er ábyrgð og því vill félagið setja markið hátt í að ná fram bættri frammistöðu í umhverfismálum og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.

Allir starfsmenn fyrirtækisins vinna eftir umhverfisstefnu félagsins og verktakar og þjónustuaðilar skulu einnig fylgja henni.

Icelandair vinnur með fyrirtækinu Klappir - Grænar lausnir til þess að fylgjast með umhverfisáhrifum af starfsemi félagsins í þeim tilgangi að gögnin séu áreiðanleg.

Umhverfisvottun

Icelandair er vottað samkvæmt hæstu gráðu umhverfisvottunar IATA sem eru alþjóðleg samtök flugrekenda, en mjög fá flugfélög í heiminum uppfylla þá vottun.

Umfang vottunarinnar nær utan um flugstarfsemi félagsins, viðhaldssvið, framleiðslueldhús, starfsemi á flughlaði og aðra almenna starfsemi.

Frame_23