25. mars 2001 varð Ísland aðili að Schengen-samstarfinu ásamt fjórtán öðrum Evrópulöndum.

Markmið Schengen-samstarfsins

  • Að tryggja ferðafrelsi einstaklinga yfir landamæri aðildarríkja.
  • Að styrkja baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi með því að efla lögreglusamstarf á milli aðildarríkjanna.

Hvaða breytingar hefur Schengen í för með sér fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar?

Aðild Íslands að Schengen hefur haft í för með sér vissar breytingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Flugstöðvarbyggingin hefur verið stækkuð og nýjar ráðstafanir gerðar til að auðvelda landamæraeftirlit, þar sem farþegar sem fljúga innan Schengen-svæðisins eru aðskildir frá farþegum sem koma frá eða fljúga til ríkja utan Schengen. Þjónusta sem veitt er í flugstöðinni verður óbreytt. Boðið verður upp á almenna þjónustu í nýrri álmu, s.s. veitingastað og tollfrjálsa verslun. Farþegar sem ferðast innan Schengen-svæðisins og frá Íslandi til lands utan Schengen fá fjölbreytta þjónustu í aðalhluta flugstöðvarinnar, s.s. tollfrjálsa verslun og veitingastaði.

Hvaða áhrif hefur Schengen-samningurinn á farþega sem ferðast til/um Ísland?

Farþegar sem ferðast innan Schengen-svæðisins eru aðskildir frá þeim sem ferðast til eða frá landi utan Schengen.

  • Farþegar sem ferðast á milli Schengen-ríkja þurfa ekki að fara í gegnum landamæraeftirlit.
  • Farþegar sem koma til Íslands frá ríki utan Schengen eða millilenda á Íslandi á leið til Schengen-ríkis:
    • Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópusambandsins og ríkisborgarar Íslands og Noregs þurfa að fara í gegnum vegabréfaskoðun við komuna til Íslands (framvísa skilríkjum og ferðaskjölum). Hafið vegabréf eða önnur gild ferðaskjöl til reiðu þegar komið er að vegabréfaeftirliti í flugstöðinni.
    • Ríkisborgarar annarra ríkja þurfa að fara í gegnum vegabréfaskoðun við komuna til Íslands (athugun á auðkenni, ferðaskjölum, þ. á m. áritunum eða dvalarleyfi ef þörf krefur, flugmiða til baka, hvort viðkomandi geti framfleytt sér og ástæður ferðar). Hafið viðeigandi skjöl til reiðu þegar komið er að vegabréfaeftirliti í flugstöðinni.
  • Farþegar sem millilenda á leið til Bretlands eða Írlands og koma frá ríki utan Schengen þurfa ekki að fara í gegnum vegabréfaskoðun í Flugstöðinni. Bretland og Írland eru ekki fullgildir aðilar að Schengen-samstarfinu og því fer landamæraeftirlit fram við komuna í þeim löndum.

Sérstakt svæði er frátekið fyrir þessa farþega á jarðhæð flugstöðvarinnar, þar sem í boði er þjónusta og verslunaraðstaða. Farþegar eru beðnir að fara ekki að vegabréfaeftirlitssvæðinu. Hið sama gildir um farþega sem ferðast frá þessum ríkjum til ríkja utan Schengen.

Farþegar sem ferðast frá Íslandi til Bretlands og Írlands þurfa að fara í gegnum vegabréfaskoðun við brottför.

Stöðluð vegabréfsáritun mun koma í stað þeirrar tilhögunar sem fyrir er.

Staðlaðar vegabréfsáritanir Schengen munu gilda fyrir ferðalög til allra Schengen-ríkja. Því verður ekki nauðsynlegt að fá sérstaka áritun til að ferðast til Íslands.

Íslensk sendiráð gefa ekki lengur út áritanir. Í þeim tilvikum þar sem Ísland er meginákvörðunarstaðurinn er hægt að sækja um áritun í sendiráðum annarra Schengen-ríkja, sem eru á meira en 100 stöðum í heiminum. Þau gefa út áritanir fyrir hönd Íslands.

Schengen breytir ekki reglum um tollaeftirlit á landamærum innan Schengen-svæðisins! Einstaklingar sem ferðast til Íslands frá einhverju Schengen-ríkjanna verða að lúta sömu reglum og áður varðandi innflutning á tollskyldum varningi og fara í gegnum venjulega tollskoðun við komuna til landsins. Reglur um tollfrjálsa verslun eru óbreyttar.

Frekari upplýsingar um Schengen má finna á www.eurovisa.info.....