Kemur þú ekki með á EM í Frakklandi?

Icelandair, sem aðalstuðningsaðili íslenska fótboltalandsliðsins, mun að sjálfsögðu bjóða upp á flug og aðra þjónustu í tengslum við EM í Frakklandi næsta sumar. Við fylgjumst spennt með því hvar í Frakklandi leikir landsliðsins verða og þegar það liggur fyrir munum við kynna ferðatilhögun og spennandi pakka sem innihalda flug og gistingu. Öll miðasala fyrir leiki Íslands fer fram í gegnum kerfi UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu á netinu og þeir sem skrá sig þar fá upplýsingar í febrúar næstkomandi um það hvort þeir fái miða. Við ætlum að njóta keppninnar með landsmönnum og strákunum okkar!

Það er leikið à 10 leikvöngum í Frakklandi. Í Bordeaux, Lens, Lille, Lyon, Marseille, Nice, Saint-Denis, Saint-Etienne, Toulouse og París. Það kemur ekki í ljós fyrr en í drættinum þann 12. desember hvar Ísland mun leika í riðlinum en leikið verður í fleiri en einni borg.

Eingöngu hægt að kaupa miða á leikina á UEFA síðunni frá 14. des til 18. jan 2016.


Algengar spurningar og svör um miða á EM

Hverjir geta sótt um miða á leiki Íslands?

Íslenskir ríkisborgarar, búsettir á Íslandi eða erlendis, og erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi.

Hvernig sæki ég um miða á leiki Íslands?

Sótt er um miða í gegnum miðasöluvef UEFA: http://www.euro2016.com

Ekki er sótt um miða í gegnum KSÍ og KSÍ stendur ekki fyrir almennri miðasölu á leiki í keppninni. Öll miðasalan og öll þjónusta/afgreiðsla fer fram í gegnum UEFA.

Hvenær get ég sótt um miða á leikina?

Umsóknarglugginn opnar á vef UEFA – http://www.euro2016.com – 14. desember og er opinn til 18. janúar.

Hvað get ég sótt um marga miða?

Hægt er að sækja um allt að fjóra miða á hvern leik í keppninni.

Skiptir máli að sækja sem fyrst um miða eftir að glugginn opnar?

Nei, þetta er ekki „fyrstur kemur, fyrstur fær“ fyrirkomulag, og enginn forgangur eftir því hvenær umsóknin er skráð. Engu máli skiptir hvenær innan umsóknargluggans umsókn er skráð. Ef til þess kemur að eftirspurn eftir miðum á tiltekinn leik er meiri en framboðið, þá mun UEFA draga úr innsendum umsóknum, þ.e. efna til happdrættis.

Hvenær veit ég hvort ég fái þá miða sem ég sótti um?

UEFA mun tilkynna umsækjendum um niðurstöðu í febrúar.