Verð á mann í tvíbýli kr. 104.900

Upplifðu París í vor með Laufeyju Helgadóttur. Einstaklega áhugaverðar fjögurra nátta sérferðir. Tvær ferðir í boði, 27. apríl - 1. maí og 1. - 5. júní 2017.

Bóka núna

Einstaklega áhugaverð fjögurra nátta sérferð til Parísar vorið 2017. Laufey Helgadóttir fararstjóri okkar í París um árabil mun leiða hópinn um króka og kima Parísarborgar. Meðal þess sem boðið verður uppá er þriggja klukkustunda skoðunarferð um Parísarborg með rútu þar sem allir helstu merkisstaðir borgarinnar verða skoðaðir. Ef tími gefst þann dag verður farið inn í Notre Dame kirkjuna. Farið verður í gönguferðir, annars vegar um Montmartre hverfið og hins vegar um Mýrina. Gist er á Best Western Ronceray Opéra *** sem er gott þriggja stjörnu hótel í 9. hverfi.

Dagsetningar í boði:
27. apríl - 1.maí
1. - 5. júní


Saga Club Gjafabréf - Hægt er að nýta Vildarpunkta sem inneign upp í flugferð til allra áfangastaða Icelandair. Athugið að einungis er hægt að nota eitt gjafabréf fyrir hvern farþega í hverri ferð.

Nánari upplýsingar um París er að finna hér.
Fyrir pakkabókun til Parísar fást 3.600 Vildarpunktar.

Verð á mann í tvíbýli kr. 104.900.-
Verð á mann í einbýli kr. 138.900.-

Dagur 1
Kl 12.55 lent í París. Laufey Helgadóttir sækir farþega á flugvöllinn og fylgir á hótel Best Western Ronceray Opéra. Við komu á hótelið verður viðtalstími með fararstjóra svo er seinni partur dagsins frjáls.

Dagur 2
Skoðunarferð um borgina kl. 09.00-13.00

Keyrt verður fram hjá helstu merkisstöðum borgarinnar, Bastillutorginu og Nýju Óperunni, Hotel de Ville, Louvre og Pýramidanum, Palais Garnier, Place Vendome, Champs-Elysées, Invalide byggingunum, Panthéon, Lúxembourgargarðinum o.s.frv. Stoppað verður á Concorde torgi, Palais de Chaillot þar sem útsýnið er best yfir Eiffelturninn og farið verður inn í  Notre Dame kirkjuna, ef tími leyfir.

Dagur 3
Gönguferð um Montmartre hverfið kl. 10.00-13.00
Montmartre eða Montmartre-hæðin í 18 hverfi Parísar er eitt af þessum sögufrægu hverfum, sem allir ferðamenn heimsækja. Á 19 öld var Montmartre kyrlátt þorp í útjaðri Parísar, þar til listamenn allsstaðar að úr heiminum fóru að flykkjast þangað og setjast þar að. Tónskáldið Hector Berlioz og rithöfundarnir Gérard de Nerval, Heinrich Heine og Henri Murger voru meðal þeirra fyrstu, en í kringum aldamótin 1900 kom önnur kynslóð, þar sem myndlistarmenn voru í meirihluta. Picasso dvaldi þar t.d. fyrstu ár sín í París og málaði þar eitt frægasta verk sitt, “Ungfrúnnar frá Avignon”, Renoir gerði hverfið ódauðlegt í verkinu Dansleikur á “Moulin de la Galette”, og Toulouse Lautrec varð einskonar goðsögn Montmartre í lifanda lífi, enda hefur hann tjáð “sál” og andrúmsloft hverfisins betur en nokkur annar. Eitt af aðalviðfangsefnum Toulouse Lautrec var Rauða Myllan sem stendur við Place Blanche neðarlega í hverfinu, og margir hafa eflaust kynnst í kvikmynd Baz Luhrmann, þar sem Nicole Kidman og Ewan MacGregor fara með aðalhlutverk. Skissur Toulouse Lautrec og teikningar af söngkonum og dönsurum Rauðu Myllunnar, Yvette Guilbert, Jane Avril, La Gouloue og Aristide Bruant eru fyrir löngu orðnar víðfrægar og gefa góða tilfinningu fyrir andrúmslofti þessara ára. Kvikmynd Jean-Pierre Jeunet um Amélie Poulin, sem var að mestu tekin í Montmartre gefur einnig góða hugmynd um þá þorpsstemningu sem ríkti og ennþá eimir eftir af. Í gönguferðinni um Montmartre munum við rifja upp andrúmsloft þessara “Belle  Époque” ára, um leið og við skoðum sögufræga staði hverfisins, St Pierre og Sacré Cæur kirkjurnar, Place de Tertre þar sem götumálararnir dvelja og nokkrar af götunum, þar sem litrík og sjarmerandi kaffihús setja svip sinn á umhverfið og allt iðar af lífi.

Dagur 4
Mýrin, sem er eitt af elstu hverfum Parísarborgar myndar eins konar þríhyrningsform, sem afmarkast af Bastillutorginu, Ráðhúsinu (Hotel de Ville) og République torginu. Eftir að Hinrik IV lætur reisa hið fræga konungstorg, Place des Vosges, í byrjun 17. aldar verður hverfið smám saman aðal aðdráttarafl aðalsins. Í meira en heila öld verður Mýrin aðal tískuhverfi borgarinnar og margar þekktustu hefðarkonur Parísar, eins og t.d. Mme de Sévigné héldu hér sínar frægu “salons” þar sem rithöfundar, listamenn og stjórnmálamenn hittust og ræddu málefni líðandi stundar. Rútur mega helst ekki keyra um hverfið vegna þess hve göturnar eru þröngar og er þess vegna upplagt að fara í gönguferð og njóta þannig fullkomlega alls þess besta sem þessi sögufræga perla hefur upp á að bjóða. Í gönguferðinni verður gengið fram hjá öllum þekktustu herragörðunum, Picasso safninu og um vinsælustu göturnar, Place des Vosges, Rue des Francs-Bourgeois, Rue de Sévigné, Rue Payenne, Rue des Archives o.s.frv.
Seinni hluti dagsins frjáls.
Kl. 20.00 væri hægt að hafa sameiginlegan kvöldverð (ekki innifalið) ef áhugi er fyrir hendi. Farþegar þurfa þá að skrá sig með góðum fyrirvara í kvöldverðinn hjá fararstjóra, hægt er að senda henni tölvupóst á laufey.helgadottir@gmail.com.

Dagur 5
Kl. 11:15 brottför á flugvöllinn. Flogið verður klukkan 14:10 með FI543. Áætluð lending í Keflavík er kl. 15:40.

Flug
Flugvallarskattar
Gisting í 4 nætur
Morgunverður
Íslensk fararstjórn og íslensk leiðsögn
Skoðunarferð um borgina
Gönguferð um Mýrina og Montmartre hverfið
Rútuferðir til og frá flugvelli erlendis

Lágmarksþátttaka 20 manns

Athugið að í boði er að kaupa forfallagjald.

Munið ferðaávísunina frá Master Card.

Saga Club Gjafabréf - Hægt er að nýta Vildarpunkta sem inneign upp í flugferð til allra áfangastaða Icelandair. Athugið að einungis er hægt að nota eitt gjafabréf fyrir hvern farþega í hverri ferð.

Takmarkað sætaframboð.

Skilmálar pakkaferða

Laufey Helgadóttir

Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður býr og starfar í París og Reykjavík. Hún er íslenskum ferðamönnum að góðu kunn, en hún hefur starfað sem fararstjóri  og leiðsögumaður í París árum saman.

Laufey  hefur yfirgripsmikla þekkingu á frönsku þjóðfélagi, sögu og menningu og þekkir  París betur en margur annar.  Með leiðsögn sinni um breiðstræti, sjónvíddir og kima borgarinnar hefur hún opnað augu ótal ferðalanga fyrir  leyndardómum og töfrum  þessarar  stórfenglegu  borgar  sem  margir  nefna "borg ástarinnar".

Laufey vinnur einnig við leiðsögn á Íslandi fyrir erlenda ferðamenn á sumrin, en ásamt því hefur hún skrifað greinar um myndlist, unnið við að skipuleggja sýningar og  var m.a. sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum árin 2003 og 2005.  

Laufey lauk leiðsöguprófi á Íslandi árið 1972 og í Frakklandi 1997 og er þess vegna með leiðsöguréttindi í báðum löndum. Hún er eini Íslendingurinn með leiðsöguréttindi í París.

Svipaðir pakkar

St. Pétursborg í ágúst

Á mann í tvíbýli kr. 87.900

Frábær 5 nátta skemmtun í St. Pétursborg dagana 16. - 21. ágúst 2017. Fararstjóri er Pétur Óli Pétursson.
St. Pétursborg í ágúst

Maddama kerling til Birmingham

Á mann í tvíbýli kr. 81.900

Skemmtiferð til Birmingham fyrir konur 17. - 20. nóvember 2017 með Carolu og Gúddý.
Maddama kerling til Birmingham