Geta allir sótt um námið, hvað með inntökuskilyrði, menntun og aldur?

Umsækjendur skulu hafa lokið prófi í framhaldsskóla. Formleg aldursmörk eru ekki sett, en reynslan sýnir að langflestir sem sækja í flugnám gera það á aldursbilinu 20-30 ára.

Hvað ræður Icelandair marga flugmenn til starfa á ári?

Á undanförnum árum hefur Icelandair ráðið til sín 50-60 flugmenn árlega, og gera má ráð fyrir að fjöldinn verði svipaður á næstu árum. En flugrekstur er sveiflukenndur og sú tala gæti bæði lækkað og hækkað þegar horft er til næstu ára.

Hvernig er námið byggt upp?

Gert er ráð fyrir að námið sé full vinna meðan á því stendur, og bóklega og verklega námið fari fram samtímis og að unnt sé að ljúka því á um 18 mánuðum. Uppbygging námsins getur verið breytilegt milli einstakra flugskóla. Ein möguleg uppsetning er eftirfarandi:

Námshluti Tímalengd Flugstundir
Bóklegt nám 6 mán  
Sjónflug, einshreyfils flugvél 3 mán 45 klst
Blindflug, einshreyfils flugvél 2 mán 30 klst
Blindflug, flugþjálfi 3 mán 30 klst
Blindflug, næturflug 2 mán 30 klst
Fjölhreyflaflug 1 mán 45 klst
Áhafnasamstarf í flughermi 1 mán 25 klst

Hvað kostar námið?

Reikna má með að námið kosti a.m.k. 8 milljónir kr. og því til viðbótar kemur uppihaldskostnaður meðan á námi stendur.

Í hvaða flugskólum fer námið fram?

Skólarnir sem eru þátttakendur í verkefninu núna í fyrstu eru BAA Flight Training í Litháen Flugakademía Keilis og Flugskóli Íslands.

Velja nemendur sér skóla sjálfir?

Valið er nemandans, en aðstæður gætu verið þannig að sumir skólar geta ekki tekið á móti nemendum á ákveðnum tímum.

Hvað kostar að sækja um?

Inntökuferlið kostar allt að 50 þúsund kr. auk kostnaðar við læknisskoðanir.

Hvað með þá sem þegar eru í flugnámi, geta þeir sótt um?

Við hvetjum þá sem eru í flugnámi að halda sínu striki í sínum skóla og þeim stendur til boða að ganga inn í þessa námsbraut.

Hvað með fólk sem sækir um en verður ekki ráðið, á það möguleika á að fá vinnu seinna hjá Icelandair?

Já, það hefur verið algengt að fólk sæki um oftar en einu sinni áður en það fær starf. Icelandair mun halda áfram að ráða flugmenn eftir hefðbundnum leiðum.

Hvenær byrja fyrstu nemendur í námi og hvenær geta þeir farið að fljúga hjá Icelandair?

Við vonumst til að geta byrjað strax í nóvember 2017 með fyrsta hópinn og fyrstu flugmenn ættu því að geta byrjað að fljúga sumarið 2019.

Hvernig er aðstoðin við fjármögnun hugsuð, hversu háir vextir eru á lánum og til hversu langs tíma er lánað?

Þetta er ekki endanlega frágengið en Icelandair mun ábyrgjast lán nemandans og semja um hagstæð vaxtakjör. Reiknað er með að lánið verði endurgreitt á 10-15 fyrstu starfsárum viðkomandi flugmanns hjá Icelandair.

Hvað ef Icelandair hefur ekki þörf fyrir flugmanninn að námi loknu?

Þá væri nemandanum frjálst að ráða sig annað og gera samkomulag um uppgreiðslu lánsins.

Hvað ef nemandinn hættir í námi eða kýs að fljúga hjá öðru flugfélagi en Icelandair þegar námi lýkur?

Þá fellur forgangur að vinnu hjá Icelandair niður og lánið þarf að greiða upp.

Hvað ef flugmaður getur ekki lokið námi af heilsufarsástæðum?

Til að lágmarka hættu á þessu mun ítarleg læknisskoðun vera hluti af inntökuferli. Fari svo að þrátt fyrir það þurfi nemandi að hætta munu aðilar skipta á milli sín þeim kostnaði sem til hefur fallið.

Hvernig er valið, hvað próf þurfa umsækjendur að gangast undir?

Inntökuferlið er á vegum BAA Flight Training í Litháen. Þeir sem hafa áhuga byrja á því að fara inn á heimasíðu þeirra og fylla út umsókn, þar sem fram koma helstu persónuupplýsingar. Í kjölfarið munu sérfræðingar frá BAA hafa samband við viðkomandi og skýra nánar út það inntökuferli sem við tekur. Það felst m.a. í greindar- og þekkingarprófi, sálfræðimat, persónuleikapróf, enskupróf ofl. Hluti af þessu ferli fer fram á netinu, en hluti með viðtölum og verkefnum með sérfræðingum skólans í Reykjavík. Greitt er fyrir inntökuprófin fyrirfram.

Þeir einstaklingar sem verða boðaðir í inntökupróf þurfa að skila inn hreinu sakavottorði. Sakavottorðið á að senda á póstfangið flugmenntilframtidar@icelandair.is.

Hvenær þarf að skila inn fyrsta flokks heilbrigðisvottorði?

Fyrsta flokks heilbrigðisvottorði þarf fyrst að skila inn að inntökuferli loknu

Hvenær verða inntökuprófin, hvar verða þau haldin og hve langan tíma taka þau?

Prófin verða haldin um leið og búið verður að vinna úr umsóknum, þau verða haldin að hluta til á netinu en einnig í Reykjavík. Nemendur munu fá allar nánari upplýsingar eftir að hafa fyllt út umsókn á vef BAA Flight Training. Reiknað er með að hægt verði að klára prófin á 2 – 3 dögum.

Hvernig undirbýr maður sig best fyrir inntökupróf?

Ekki er gert ráð fyrir sérstökum undirbúningi þó hugsanlega vilja einhverjir undirbúa sig fyrir t.d. enskupróf